Trans konur í Indónesíu auðmýktar og barðar á almannafæri

Í Indónesíu er algengt að trans konur starfi á snyrtistofum. Í janúar 2018 gerði lögregla í Aceh-héraði í Indónesíu áhlaup á fimm snyrtistofur og handtók tólf einstaklinga sem hún gerði ráð fyrir að væru trans konur.

Meðferðin sem þessir tólf einstaklingar, níu trans konur og þrír karlkyns viðskiptavinir, voru látnir sæta í framhaldinu var skelfileg. Öll voru þau auðmýkt á almannafæri. Þau voru neydd til að sitja á hækjum sér og ganga þannig að nærliggjandi almenningsgarði þar sem þau sættu „refsingu“ í tvær klukkustundir frammi fyrir hópi fólks sem safnaðist saman í garðinum. Hárið var klippt af þeim, auðsæilega til að láta trans konurnar líta út fyrir að vera „karlmannlegri“. Lögreglan öskraði skipunum að þeim, þau voru slegin, sparkað í þau og þeim fyrirskipað að velta sér á jörðinni, auk þess að afklæðast að mestu. Þegar ein konan neitaði að hlýða skipunum lögreglu var byssuskoti hleypt af. Í framhaldinu voru þau handtekin og þvinguð til að verja nóttinni, köld og blaut, á gólfi lögreglustöðvar.

Næsta dag bauð lögreglan trúarklerk að mæta á stöðina til að predika. Klerkurinn lýsti því yfir að það væri allt í góðu „að drepa trans fólk og annað hinsegin fólk“.

Áður en þeim var sleppt úr haldi þurftu allir einstaklingarnir tólf að skrifa undir samkomulag um að „hegða sér ekki eins og konur“ og kvarta ekki yfir hegðunarbroti lögreglu.

Þau þjást öll sárlega í kjölfar þessarar hrottafengnu meðferðar og nokkrar kvennanna hafa misst starf sitt á meðan aðrar hafa neyðst til að flýja vegna ótta um öryggi sitt.

Þrýstu á stjórnvöld í Indónesíu að draga hina seku til ábyrgðar, veita þolendum skaðabætur og vernda þá og fjölskyldur þeirra.

 


Láttu það berast