Dæmdur til dauða þegar hann var 14 ára

Íranski drengurinn Abolfazi Chezani Sharahi á enn í hættu að vera tekinn af lífi eftir að aftöku hans sem var áætluð þann 17. janúar síðastliðinn var frestað. Hann var aðeins 14 ára gamall þegar hann hlaut dóminn. Allt frá árinu 2014 hefur hann fjórum sinnum upplifað þá angist að vera fluttur í einangrunarklefa til undirbúnings á aftöku sinni.

Dómstóll í Qom-héraði í Íran dæmdi Abolfazi Chezani Sharahi til dauða þann 17. september árið 2014 fyrir banvænt stungusár á ungum manni í desember 2013 en samkvæmt sakfellingunni lenti þeim saman. Úrskurður dómstólsins byggði á íslömskum hegningarlögum frá árinu 2013, grein 147 sem kveður á um að drengir séu saknæmir við 14 ára aldur og stúlkur við átta ára aldur.
Árið 2015 lagði Abolfazi fram beiðni um endurupptöku á máli sínu fyrir dómstólum byggða á ungum aldri hans en þeirri beiðni var hafnað af hæstarétt landsins.  
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem Íran fullgilti árið 1993 kveður fortakslaust á um algjört bann við beitingu dauðarefsingarinnar vegna glæpa sem framdir eru af einstaklingum undir 18 ára aldri.

Amnesty International berst gegn dauðarefsingunni í öllum tilvikum án undantekninga óháð eðli glæpsins eða aðferðinni sem ríki beita til aftöku. Dauðarefsingin brýtur gegn réttinum til lífs og er hin endanlega grimmilega, ómannlega og vanvirðandi meðferð.

Krefðu stjórnvöld í Íran um að hætta við öll áform um að taka Abolfazi Chezani Sharahi af lífi og tryggja að dauðadómurinn sé mildaður án tafar. 


Láttu það berast