Öryggi og heilsa flóttamanna og hælisleitenda í hættu á Manus-eyju!

Óttast er um öryggi og heilsu hundruð flóttamanna og hælisleitenda sem eru í varðhaldi á Manus-eyju eftir að hætt var að veita þar grunnþjónustu þann 31. október síðastliðinn. Flóttamenn og hælisleitendur á eyjunni hafa ekki aðeins takmarkaðan aðgang að mat, drykkjarvatni, rafmagni og læknisaðstoð heldur eiga þeir í hættu á að sæta ofbeldi af hálfu nærsamfélagsins og öryggissveita Papúa Nýju-Gíneu.

Í lok október afturkölluðu áströlsk stjórnvöld allt starfslið og alla þjónustu í flóttamannabúðum á Manus-eyju. Þar hafa flóttamenn og hælisleitendur sætt illri meðferð í nærri fimm ár. Stefna Ástrala hefur verið sú að senda flóttamenn og hælisleitendur sem koma sjóleiðina til landsins í flóttamannabúðir á Manus-eyju sem tilheyrir Papúa Nýju-Gíneu og eyjunni Nauru. Flóttamönnunum og hælisleitendum, sem eru rúmlega 600 á Manus-eyju, var skipað að fara í svokallaðar flutningamiðstöðvar þar sem pláss er lítið, heilbrigðisaðstaða bágborin og öryggismál eru í algjörum ólestri.

Hundruð flóttamanna og hælisleitenda sem dvelja í umræddum miðstöðvum segjast munu forðast flutninga þar sem þeir óttast mjög um öryggi sitt. Heimamenn hafa áður ráðist á flóttafólkið í bænum Lorengau, stundum vopnaðir sveðjum með þeim afleiðingum að margir hafa slasast alvarlega. Stjórnvöld í Ástralíu og Papúa Nýju-Gíneu hafa hvorug veitt flóttafólkinu og hælisleitendunum nægilega vernd gegn slíku ofbeldi.

Behrouz Bochani frá Íran segir frá reynslu sinni en hann dvelur í flóttamannabúðum á Manus-eyju. 

Þrýstu á áströlsk stjórnvöld og stjórnvöld í Papúa Nýju-Gíneu að tryggja flóttafólki og hælisleitendum aðgang að viðunandi búsetuskilyrðum, m.a. aðgengi að læknisþjónustu, mat, vatni, rafmagni, hreilætisaðstöðu og öðrum nauðsynlegum aðbúnaði. Þá þurfa sömu stjórnvöld einnig að tryggja öryggi flóttafólkins og hælisleitendanna m.a. gagnvart ofbeldi heimamanna og öryggissveita.

 


Láttu það berast