Japan: Stjórnvöld afnemi dauðarefsinguna

Í dag 10. október er alþjóðlegur dagur gegn dauðarefsingunni. Af því tilefni viljum við vekja athygli á slæmum afleiðingum varðhaldsvistar þeirra sem sitja á dauðadeild í Japan og máli Matsumoto Kenji. Matsumoto er haldinn ranghugmyndum sem að öllum líkindum má rekja til langvarandi einangrunarvistar á meðan hann hefur beðið aftöku sinnar. Yfirvöld hafa ekki veitt neinar upplýsingar um hvenær aftakan muni fara fram. Í bréfi Matsumoto Kenji lýsti hann ótta sínum af því að heyra endurtekið í öðrum föngum þegar farið er með þá úr klefum sínum í aftöku.

Matsumoto Kenji hefur setið á dauðadeild fyrir morð frá árinu 1993 og má vænta aftöku sinnar hvað úr hverju. Hann hefur lengi verið andlega veikur en veikindi hans má rekja til kvikasilfurseitrunar (Minamata-veikin). Hann er haldinn ofsóknaræði vegna veru sinnar í dauðadeild. Hann var dæmdur fyrir tvö rán og morð frá september 1990 til sama mánuðar ári síðar. Matsumoto Kenji áfrýjaði málinu en því var hafnað á æðra dómstigi í Osaka. Síðari áfrýjun til hæstaréttar var einnig hafnað og dauðarefsing hans staðfest þann 4. apríl árið 2000.

Matsumoto Kenji er með lága greindarvísitölu (á milli 60 og 70 samkvæmt greiningu geðlæknis) og að sögn lögfræðings hans neyddi lögreglan hann til að játa á sig brotin með því að bjóða honum mat og segja við hann hluti eins og ,,vertu maður” á meðan á yfirheyrslunum stóð. Þrátt fyrir þetta dæmdi dómstóllinn hann andlega hæfan til að vera dæmdur til dauða og að játningar hans væru áreiðanlegar. Matsumoto Kenji er nú í hjólastól og lögfræðingur hans segir að vegna ranghugmynda sinna sé hann ekki fær um að skilja og taka þátt í rekstri máls síns. Hann er einnig ófær um að skilja eðli og tilgang refsingarinnar sem hann hefur verið dæmdur til.

Í lok árs 2017 áttu 134 manneskjur yfir höfði sér dauðarefsingu í Japan. Upplifun þeirra sem bíða dauðarefsingar í fangelsum er slæm og brýtur í bága við alþjóðsamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Japan er aðili að. Föngum á dauðadeild er bannað að tala við aðra fanga og sæta strangri einangrunarvist. Samskiptum við umheiminn er haldið í lágmarki, fjölskylduheimsóknir eru sjaldgæfar og undir ströngu eftirliti. Þá eru bréf fanga sem þeir bæði senda og fá send ritskoðuð.

Á alþjóðlegum degi gegn dauðarefsingunni krefjast Netákallsfélagar að Matsumoto Kenji verði ekki tekinn af lífi og að refsingar fanga sem nú sitja á dauðadeild komi ekki til framkvæmda. Það verði fyrsta skrefið í átt að algjöru afnámi dauðarefsingar; veittar verði upplýsingar um mál Matsumoto Kenji og dauðarefsingar allra annarra fanga; bundinn verði endir á einangrunarvist á og sjálfstæð endurskoðun hefjist strax á öllum málum fanga á dauðadeild, sér í lagi þeirra sem glíma við andlega eða vitsmunalega örðugleika; að upplýst umræðu um afnám dauðarefsingarinnar í Japan verði efld og gripið verði til tafarlausra ráðstafana til að afnema refsinguna í landslögum.

 


Láttu það berast