15 ára stúlkubarni nauðgað, það pyndað og myrt á hrottafenginn hátt

María Isabel Franco var aðeins 15 ára gömul þegar hún var pynduð, henni nauðgað og hún myrt á hrottafenginn hátt í desember árið 2001. Rosa, móðir Maríu, hefur æ síðan barist fyrir því að hinir seku séu dregnir til ábyrgðar en yfirvöld í Gvatemala hafa látið undir höfuð leggjast að aðhafast nokkuð í málinu. Allt fram til dagsins í dag óttast Rosa um líf sitt en frá því að hún tók að berjast fyrir réttlæti dóttur sinni til handa hefur hún fengið fjölda líflátshótana og að sögn er heimili hennar vaktað.

Í byrjun árs 2004 fór Rosa fram á að mál dóttur sinnar yrði tekið fyrir hjá Mannréttindadómstól Ameríkuríkja. Tíu árum síðar ályktaði dómstóllinn að yfirvöld í Gvatemala hefðu látið undir höfuð leggjast að vernda rétt Maríu til lífs og rétt fjölskyldu hennar á rannsókn á morðinu, sanngjörnum réttarhöldum og lagalegum úrræðum. Alvarlegar athugasemdir voru gerðar við rannsókn málsins og bent á að kynbundnar staðalmyndir í Gvatemala hefðu haft neikvæð áhrif á rannsóknina þar sem sökinni væri komið á fórnarlambið og fjölskyldu hennar.

Dómstóllinn fyrirskipaði ríkisvaldinu að ýta úr vör skilvirkri rannsókn í þeim tilgangi að auðkenna og refsa þeim sem ábyrgð bæru á morðinu á Maríu Isabel Franco, auk þess að þróa og styrkja lagaramma sem verndar konur og stúlkur í Gvatemala gegn ofbeldi.

María Isabel Franco er ein af þúsundum kvenna í Gvatemala sem hafa verið myrtar á undanförnum árum án þess að mál þeirra hafi verið rannsökuð eða hinir seku látnir svara til saka.

Þrýstu á ríkissaksóknara Gvatemala að staðfesta úrskurð Mannréttindadómstóls Ameríkuríkja með því að rannsaka morðið á Maríu Isabel Franco og sakfella þá sem ábyrgð bera á morðinu.

 


Láttu það berast