Erítrea: Fyrrum ráðherra horfinn eftir útgáfu bókar

Þann 17. september síðastliðinn fóru öryggisverðir með Berhane Aberhe, fyrrverandi fjármálaráðherra Erítreu, á ótilgreindan stað nokkrum dögum eftir útgáfu bókar hans þar sem hann hvatti Erítreumenn til að mótmæla stefnumálum stjórnvalda með friðsömum hætti. Ekkert hefur spurst til hans síðan.

Að morgni 17. september sat fyrrum fjármálaráðherra Erítreu að snæðingi með syni sínum í Asmara þegar öryggisverðir komu á staðinn og báðu hann að koma með sér. Fjölskylda hans hefur ekkert heyrt í honum síðan né verið upplýst um hvar hann er

Amnesty International telur að handtakan tengist útgáfu nýrrar bókar sem hann er höfundur að og ber heitið ,,Erítrea, landið mitt” (e. Eritrea Hagerey). Bókin kom út þann 11. september síðastliðinn. Í henni hvetur Berhane Erítreumenn til friðsamlegra mótmæla sem beinast að lýðræðislegum breytingum innan stjórnkerfisins. Í hljóðupptöku á netinu sem var deilt með landsmönnum þann 6. september sagði Berhane núverandi forseta Erítreu bera ábyrgð á þjáningum samlanda sinna og krafðist breytinga. Þá skoraði hann einnig á forsetann að mæta til kappræðna í sjónvarpi. Hljóðupptakan var birt á netinu en enginn sjálfstæður fjölmiðill er starfandi í Erítreu.

Kona Berhane, Almaz Habtermariam, hefur verið í haldi án dóms síðastliðið ár fyrir að leyfa syni þeirra hjóna að fara frá landinu án leyfis yfirvalda fyrir því. Erítreumenn sem hyggjast yfirgefa land sitt til lengri eða skemmri tíma verða að fá tilskilin leyfi hjá yfirvöldum.

Netákallsfélagar krefjast þess að yfirvöld í Erítreu upplýsi um hvar Berhane er niðurkominn og leysi hann strax úr haldi; að Berhane sé ekki pyndaður né hljóti illa meðferð þangað til honum er sleppt úr haldi og að rétturinn til tjáningarfrelsis sé virtur án þess að borgarar Erítreu óttist refsingu stjórnvalda.

 

 


Láttu það berast