Íran: Leyfið mannréttindafrömuði að fara í krabbameinsmeðferð

 Arash Sadeghi hefur verið í fangelsi í Íran frá árinu 2016 vegna friðsamlegra starfa sinna í þágu mannréttinda, fyrir að hafa tjáð skoðanir sínar í fjölmiðlum og átt í samskiptum við Amnesty International. 

Í dag er Sadeghi í mikilli neyð og þarf nauðsynlega á læknishjálp að halda en hann er með sjaldgæft krabbamein í beinum. Írönsk fangelsisyfirvöld hafa hins vegar neitað honum um frekari læknishjálp. Neitunin gæti kostað Sadeghi lífið.

Eftir að hafa verið með verki í olnboga og öxlum, sem ekki voru meðhöndlaðir svo mánuðum skipti var Sadeghi loks sendur í rannsóknir á sjúkrahúsi. Hann fékk þó ekki að vita niðurstöðurnar úr rannsóknunum því læknar hans létu ekkert í sér heyra. Að lokum fékk Sadeghi sjúkraskýrslu sína í hendurnar og komst að því að hann var greindur með æxli í olnboga. Læknar töldu hann þurfa að fara tafarlaust í frekari rannsóknir vegna gruns um að um væri að ræða sjaldfæft krabbamein í beinum.

Stjórnvöld í Íran hafa, þvert á ráðleggingar lækna, neitað að færa Sadeghi til sérfræðilækna svo hann geti undirgengist frekari rannsóknir. Fjölskylda hans hefur áfrýjað málinu til saksóknara í Tehran en því hefur verið hafnað.

Líf Sadeghi hangir á bláþræði og heilbrigðisstarfsfólk segir hann þurfa á sérfræðimeðferð að halda undir eins, hann megi engan tíma missa.

Skrifaðu undir og skoraðu á írönsk yfirvöld að sleppa Sadeghi tafarlaust úr haldi og tryggja að hann fái þá lífsnauðsynlegu og sérhæfðu læknishjálp sem hann þarfnast. 


Láttu það berast