Kongó: Leysið unga aðgerðasinna úr haldi

Fimm ungir menn eiga yfir höfði sér þriggja ára dóm fyrir að krefjast lýðræðislegra umbóta í Kongó. Fyrir hvað? Að hvetja fólk til að mótmæla og tala fyrir lýðræðislegum og áreiðanlegum kosningum sem eru aðgengilegar öllum.

Forsetar geta einungis setið í embætti í tvö kjörtímabil í Kongó samkvæmt stjórnarskránni. Joseph Kaliba núverandi forseti Kongó hefur hins vegar neitað að láta af embætti eftir þann tíma.

Til að bregðast við því stóðu fimm ungir aðgerðasinnar, þeir Grâce Tshiunza, Mino Bopomi, Cedric Kalonji, Carbone Ben og Palmer Kabeya fyrir mótmælum til að verja stjórnarskrána. Þeir kölluðu eftir að fangar yrðu látnir lausir, fjölmiðlafrelsi yrði virt og leiðtogar stjórnarandstöðuhópa yrðu kallaðir úr útlegð. Þess má geta að fimmmenningarnir eru allir meðlimir í einni háværustu borgarahreyfingu Kongó, Filimbi.

Mótmælin voru barin niður með valdi og misstu að minnsta kosti 17 einstaklingar lífið, fjöldi fólks slasaðist og aðgerðasinnarnir fimm voru handteknir.

Mennirnir ungu sátu í einangrun í sex mánuði áður en mál þeirra var tekið fyrir í júní síðastliðinn. Þeir voru ákærðir fyrir að móðga forsetann, birta skrif sem var ætlað að grafa undan stjórnkerfinu og borgaralega óhlýðni. Nú eiga þeir yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsisdóm.

Fangelsun kongóskra yfirvalda á borgurum sínum sem tala fyrir auknu lýðræði hefur viðgengist allt of lengi en þau eru þegar farin að finna fyrir þrýstingi. Nýlega, eftir öldur mótmæla, ákvað Kabila forseti að hann myndi ekki bjóða sig fram aftur í næstu kosningum.

Nú er tími til að keyra upp hitann. Krefjum kongósk yfirvöld til þess að leysa aðgerðarsinnana fimm tafarlaust úr haldi!

 


Láttu það berast