Írönsk kona í fangelsi þarf tafarlaust spítalavistun

Heilsu baráttukonunnar Ateu Daemi hefur hrakað mjög ört. Hún hefur verið í hungurverkfalli í 46 daga í Evin-fangelsinu í Teheran og er orðin alvarlega veik. Líkami hennar er byrjaður að hafna vatni. Þrátt fyrir aðvaranir lækna neita fangelsismálayfirvöld að flytja hana á spítala fyrir utan fangelsið þar sem hún getur fengið sérhæfða læknisaðstoð. Hún hefur verið í hungurverkfalli frá 8. apríl og hóstar upp blóði, þjáist af uppköstum og miklum svima, blóðþrýstingur hennar flöktir og verkir í nýrum stöðugir og ofsafengnir. Þá hefur Atea Daemi orðið fyrir gífurlegu þyngdartapi.

Þann 8. maí síðastliðinn var Daemi flutt á spítala eftir að hafa misst meðvitund nokkrum dögum fyrr. Þar gekkst hún undir nokkrar rannsóknir með hraði en var síðan send aftur í fangelsið áður en niðurstöður rannsóknanna lágu fyrir. Læknar vöruðu fangelsismálayfirvöld við því í framhaldinu að sýkingin í nýrum Daemi væri komin á alvarlegt stig og kölluðu eftir því að hún yrði tafarlaust lögð inn á spítala.

Í lok apríl var Daemi flutt á læknastofur fangelsisins þar sem hún átti að fara í hjartalínurit en hjúkrunarfræðingurinn sem var karlmaður neitaði að framkvæma rannsóknina. Réttlætingin var sú að það væri „óviðeigandi“ að karlkyns heilbrigðisstarfsmaður framkvæmdi slíka rannsókn þar sem skjólstæðingurinn þyrfti að fara úr fötum sem hylja bringuna til að unnt sé að fylgja rannsókninni eftir.

Atena Daemi var dæmd í sjö ára fangelsi vegna friðsamlegrar baráttu hennar fyrir mannréttindum í Íran. Daemi hóf hungurverkfallið til að mótmæla fangavist systra hennar, Hanieh og Enisieh, sem dæmdar voru fyrir „að móðga opinbera starfsmenn við skyldustörf“. Þann 13. mars var Atena Daemi dæmd í sjö ára fangavist og systur hennar til þriggja mánaða fangavistar í Evin-fangelsinu. Dómurinn yfir systrum Daemi byggði á mótmælum sem þær höfðu í frammi þegar þrír öryggisverðir færðu Daemi með ofbeldi í varðhald þann 26. nóvember 2016. 

Lögfræðingur Atenu Daemi og systra hennar bíður niðurstöðu áfrýjunardómstóls vegna sakfellingar gegn þeim. Lögfræðingur þeirra óttast mjög að áfrýjuninni verði synjað. Amnesty International telur að réttarhöldin yfir systrunum sem leiddi til sakfellingar þeirra hafi verið óréttlát og að systurnar séu allar samviskufangar.

Krefðu stjórnvöld í Íran um að leysa Atenu Daemi tafarlaust og án skilyrða úr haldi og tryggja að hún hafi aðgang að hæfu heilbrigðisstarfsfólki sem geti veitt henni þá aðhlynningu sem hún sárlega þarf á að halda og er í samræmi við læknasiðferði, auk þess að rannsaka pyndingar og aðra illa meðferð sem Daemi hefur sætt í fangelsi. 


Láttu það berast