Stöðvið varðhaldsvistun og sölu á flótta-og farandfólki í Líbíu

Pyndingar, varðhald, misneyting og nauðganir eru daglegur hryllingur fyrir margt flótta- og farandfólk í Líbíu. Í stað þess að binda enda á þessi hræðilegu mannréttindabrot aðstoða Evrópuþjóðir Líbíu við að halda fólkinu föngnu í helvíti. Með því að þjálfa líbísku strandgæsluna og útvega henni skip til að flytja flótta- og farandfólk aftur til Líbíu ýta leiðtogar Evrópu undir ólýsanlegar þjáningar fólks.

Rúmlega 20.000 flótta- og farandfólki, ásamt hælisleitendum er haldið á varðhaldsstöðvum í Líbíu. Fólkið hefur ekki hugmynd um hvenær eða hvort því verði nokkru sinni sleppt úr haldi. Aðstæður fólksins eru með öllu ómannúðlegar þar sem lítið aðgengi er að mat, vatni eða læknishjálp. Fólkið sætir hrottafenginni meðferð, pyndingum, nauðgunum og gengur jafnvel kaupum og sölu.

Það skiptir sköpum að við þrýstum á leiðtoga Líbíu og Evrópu að vernda flótta- og farandfólk gegn skelfilegum mannréttindabrotum í Líbíu.

Af hverju er þetta brýnt? Jú, vegna þess að 20.000 flótta- og farandfólk er innilokað í Líbíu og er nú upp á náð og miskunn hermanna og vopnaðra hópa komið.

Skrifaðu strax undir bréf til stjórnvalda í Líbíu og Evrópu og krefðu þau um að vinna saman að:

  • Frelsun alls flótta- og farandfólks úr varðhaldsstöðvum og því að binda enda á varðhald fólksins af geðþóttaástæðum.
  • Rannsókn á ásökunum um pyndingar og aðra illa meðferð á flótta- og farandfólki í Líbíu og tryggja að hinir seku séu sóttir til saka í sanngjörnum og gagnsæjum réttarhöldum til að binda enda á vítahring mannréttindabrota í landinu.
  • Gagngerri endurskoðun á samvinnu í stefnumálum um farandfólk og því að setja vernd mannréttinda flótta- og farandfólks á oddinn í stað þess að hneppa það í gíslingu í Líbíu.
  • Formlegri viðurkenningu á Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og veiti stofnuninni fullt umboð til að sinna hlutverki sínu m.a. að vernda flótta- og farandfólk. 

Láttu það berast