Kína: Óttast er að fangi á dauðadeild sæti frekari pyndingum

Kínverski aðgerðasinninn Xu Youchen vottaði fyrir áfrýjunarrétti að hann hafi sætt pyndingum af hálfu lögreglu í þeim tilgangi að fá fram sönnun til að sakfella og dæma hann til dauða í desember 2016. Óttast er að Xu Youchen eigi enn á hættu að sæta pyndingum og annarri illri meðferð.

Xu Youchen lagði fram 55 síðna vitnisburð fyrir áfrýjunarrétti í Henan þann 18. maí síðastliðinn þar sem fram kemur hvernig hann var pyndaður af lögreglu meðan á varðhaldsvist hans stóð árið 2014. Beiðni verjanda hans um að fá afrit af myndbandsupptöku af vettvangi glæpsins, auk myndbandsupptöku frá lögreglu af yfirheyrslunni, var synjað fyrir rétti. Að sögn Xu Youchen skrifaði hann undir yfirlýsingu sem samin var af lögreglu um að hann hafi keypt hníf til að ráðast á lögreglumann í hefndarskyni. Xu Youchen „játaði“ á sig glæpinn eftir að hafa sætt hrottafengnum barsmíðum og lyfjum þröngvað ofan í hann.

Í desember 2016 var Xu Youchen dæmdur til dauða fyrir morð af yfirlögðu ráði á lögreglumanni.  

Áfrýjunarréttarhöldin í Henan stóðu aðeins yfir í fjórar klukkustundir en síðan var máli Xu Youchen vísað til sérstakrar dómnefndar sem dómarar og umsjónaraðilar áfrýjunardómstólsins í Henan eiga sæti í. Enginn verjandi má sækja fundi dómnefndarinnar. Úrskurður nefndarinnar um áfrýjun liggur ekki fyrir.

Verjandi Xu Youchen heimsótti hann í fangelsið í febrúar á þessu ári og komst að því að Xu Youchen er öllum stundum hlekkjaður á höndum og fótum.

Skrifaðu undir ákall til yfirvalda í Henan í Kína þar sem þess er krafist að réttað verði yfir Xu Youchen að nýju í samræmi við alþjóðleg viðmið um sanngjörn réttarhöld án skírskotunar til dauðarefsingarinnar. Undirskrift þín getur skipt sköpum. Þá skuli yfirvöld tryggja að hvaða yfirlýsing sem fengin er fram með pyndingum eða illri meðferð verði ekki notuð sem sönnunargagn og að Xu Youchen hljóti vernd gegn pyndingum og annarri illri meðferð í fangelsi. Þá skulu yfirvöld hrinda úr vör óháðri rannsókn á þeim pyndingum sem Xu Youchen hefur sætt. Stattu vaktina með Amnesty International. Látum óréttlætið ekki sigra!


Láttu það berast